21.9.05

Fallin vígi


Er búin að pæla mikið í því, eftir nýlega færslu hjá Kriss frænda mínum, hvort það sé yfirhöfuð hægt að vera lélegur í bloggi. Mín fyrsta hugsun var sú að ég hlyti að vera lélegur bloggari, afkastalítil sem ég nú er í þeirri deildinni. En eftir nokkurra daga þankagang hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þurfi bara alls ekkert að vera svo. Ég meina, er e-r að telja færslur eða orð. Er ekki betra að skrifa bara sjaldan, og þá ekkert æginlega leiðinlega, heldur en oft og innantómt?

Iss, ég er barasta ekkert lélegur bloggari. Og á sömu nótum er ég ekkert léleg hækja! Alveg sama þótt að mínir menn láti engin tækifæri ónotuð til þess að kasta í mig eiturpillum þess efnis. Ég hef barasta alltaf verið góð í því sem ég tek mér fyrir hendur. Og ég hreinlega neita öllum ávirðingum í þá átt að mér sé e-ð að förlast bogalistin. O.k. ég viðurkenni að tíma mínum hefur örlítið verið dreift og gagnkynhneigður maður hefur ráðist inn á áður óskipta athygli samkynhneigðra. En til þess að vera alveg sanngjörn, þá fær maður nú meira til baka sem kærasta heldur en hommahækja. Ég hef hins vegar ekki sagt upp störfum og því til staðfestingar fylgir með mynd af mér og heimilishommanum á árshátíðinni okkar.

Nú er ég best í að vera kærasta. Engin önnur stúlkukind kemst með tærnar þar sem ég hef hælana í þeim málum. Ég hef einsett mér að slá í gegn í þeirri deildinni, og þá bara geri ég það. Alveg eins og ég trúi því að ég hafi slegið í gegn í bloggheimum og hommaheimum. Mér líður vel í þessari vissu. Ég er ekki léleg.

25.7.05

Bæt mí...


Varð um og ó, er ég sá að allar færslurnar mínar s.l. 5 mánuði hefðu horfið eins og dögg fyrir sólu. Ákvað því í snatri að skella mér í hugleiðingagírinn og leyfa þeim að rata af og til á síðuna.

Verslunarmannahelgin hefur aldrei þýtt e-ð stórkostlegt í mínum huga. Ég hef aldrei á minni litlu ævi farið á útiskemmtun eða sótt í fjöldasamkomur af neinu tagi þessa helgi. Þvert á móti, finnst mér hin besta skemmtun að vera í tómri borginni eða tómum Ísafirði og gera e-ð sniðugt með þeim sem heima sitja og skrýtnum ferðalöngum. En enginn veit sína ævina...

Nú ber svo við að ég mun fara á fjöldasamkomu þetta árið. Fjöldasamkomu sem er ekkert lík, þjóðhátið, kantrýhátið, neistadóti eða pylsusamkomu á norðurlandi. Neibb, ég mun bruna með heimilisnördinum á árlega samkomu íslandsdeildar IANOF (les: The international association of nerds & other freaks). Veit svosum ekki við hverju ég má búast, en ég hef þó komist að því að íslenskum nördum þykir sopinn góður, þeir kunna að spila fullt af spilum og sumir eru m.a.s. nokkuð liðlegir á dansgólfinu. Þar að auki er líklegt að samsæriskenningar um vonsku Bush verði settar fram (ég er nær undantekningarlaust sammála þeim kenningum), teknar verði umræðurispur um félagslegt gildi þess að vera í tölvuspilinu WOW (world of warcraft) á alnetinu, tæpt á bestu nettengingunum, niðurhali og upphali og öruggt má telja að rætt verði um bæt af e-u tagi, mega, gíga, semi og öll hin.

Hvaða hlutverki ég mun gegna á samkomunni á eftir að koma í ljós, en teljast verður ólíklegt að ég komi sterk inn í umræðuna um bætin.

2.3.05

Ðe biggest lúúser...

100100100100100100100100100100100100100100100100100100100100


Good times...

25.2.05

Annus wonderfullus...

Tívolítæki eru ekki í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef satt best að segja ekki mjög góða reynslu af þessu eina sem ég hef skellt mér upp í. En þrátt fyrir það þykist ég hafa e-a hugmynd um hvernig rússibanaferð gæti verið. Ef ég fylltist ofsahræðslu í víkingaskipinu góða, þá hlýt ég að missa alla stjórn í rússibana. Og það er örugglega erfiðara að gefa stjórnanda tækisins merki um að stöðva ferðina.

Síðast liðið ár var ein allsherjar, óstöðvandi rússibanaferð. Rússibanaferð, sem mér hefur fundist erfið, stórskemmtileg og full af óvæntum uppgötvunum. Yfir erfiða partinn fyrnist hins vegar fljótt út af öllu hinu, ég læt það því liggja á milli hluta.

En þetta var sum sé árið sem ég visnaði. Með visnuninni varð aftur gaman að vera til og njóta alls sem lífið býður upp á. Á umliðnu ári fór ég að passa í ýmislegt: Sokkabuxur, búðarföt, flugvélasæti, belti í aftursætum bíla og litla kaffihúsastóla. Á þessu sama ári gat ég krosslagt fætur, labbað hratt og mikið, stundað daglega líkamsrækt og farið í almenningssund. Þetta árið hætti ég að biðjast afsökunar á tilvist minni. Umrætt ár fór ég líka aftur í bíó, á skemmtistaði, útilegu og í Bláa lónið í fyrsta sinn. Ég hætti að hafa verki út um allan líkamann og fór að geta sofið fullan nætursvefn í fyrsta sinn í nokkur ár. Nú get ég setið í fanginu á heimilishommanum og knúsað hann eins og bestu vinkonu sæmir.
Á árinu fann ég hverjir vildu styðja og gleðjast með, og þeir eru margir.

Kannski þykir ekkert af þessu merkilegt í neinum huga nema mínum eigin. Það er allt í lagi, þetta var mitt ár. Best og merkilegast var þó að verða hamingjusöm, sem var efst á óskalistanum. Það skrifast á heimilisnördinn, sem er það stórkostlegasta af öllu því sem rússibanaferðin hafði upp á að bjóða. Núna er ég á hvolfi í rússibananum og þrátt fyrir lofthræðslu og veltuveiki, er það barasta stórskemmtilegt.

Good times.

9.2.05

Í kolli mínum...

Nönnukaffi er á tímamótum. Eigandi þess, undirrituð, lifir fábrotnu lífi og hefur frá litlu að segja. Heimilishomminn er fjarri góðu gamni og heimilislíf okkar heimilisnördans, jafn ævintýralegt og barmafullt af spennandi viðburðum sem það nú er, er ritskoðað.

Ég sem að vísu bloggfærslur í huganum, langar og miklar, en þær komast aldrei lengra en það. Þannig eru komnir rúmlega 2 mánuðir síðan uppgjör mitt við s.l. ár, spratt fram í kolli mínum, þar sem það er enn. Ég hef samið heilu pistlana eftir heimspekilegar vangaveltur mínar í fásinni dagsins, en þá geymi ég enn í mínum fagra kolli.

Þrátt fyrir allt þetta erfiði huga míns hafa lesendur Nönnukaffis leyft sér að vera með skæting og leiðindi, eins og þeir hafi ekkert annað að gera. Ég óska eftir uppbyggjandi gagnrýni þess í stað, og tillögum um framhaldið. Sjálfri hefur mér dottið í hug að skella fram einni og einni uppskrift úr tilraunaeldhúsi Nönnukaffis, jafnvel með ummælum gesta um viðkomandi rétt. Það væri jafnvel einkar viðeigandi þar sem nördamennska mín nær einmitt hæðum í þeirri deildinni.

En á þeim nótum get sosum alveg sagt frá niðurstöðum rannsóknar minnar á saltkjötsneysluvenjum ólíkra þjóðfélagshópa íslendinga.

Rannsóknin var gerð með vettvangsathugun í eigið eldhús þar sem rannsakandi, ég, sauð saltkjöt í stórum potti og baunasúpu með grænmeti og beikoni í öðrum stórum potti. Með því að fylgjast með neysluvenjum 3ja ólíkra hópa fólks, sem samanstóðu af einum fulltrúa fyrir hvern þeirra, komst ég að þeirri stórmerkilegu niðurstöðu að til eru a.m.k. 3 leiðir til þess að borða einn og sama réttinn:
Viðfang 1 (úr hópi homma) kýs að borða réttinn á eftirfarandi hátt: Súpan borðuð ein og sér, því næst kjöt og kartöflur á sér disk og endað á öðrum súpudisk. Hmmm...
Viðfang 2 (úr hópi nörda) kýs að borða réttinn á eftirfarandi hátt: Súpa sett í súpudisk, kjöt og kartöflur sett í bitum út á og allt saman borðað með skeið. Hmmm...
Viðfang 3 (úr hópi hækja í tilvistarkreppu) kýs að borða réttinn á eftirfarandi hátt: Kjöt sett á flatan disk, smá baunasúpa yfir, eins og um sósu væri að ræða, og allt saman snætt með kartöflumús.

Stefni á að nýta þessar niðurstöður sem grunn að langtímarannsókn fyrir komandi sprengidaga, enda um stórmerkilegar niðurstöður að ræða.

7.2.05

Depill er ofboðslegt dúndur og æði...

15.12.04

Tveggja heima tal...

Hommaheimar hafa verið mér drjúgir til þessa, er kemur að umræðuefnum. Einkum og sér í lagi er ég hafði minn eiginn heimilishomma sem jafnframt átti tölvu. Þegar hún fór af heimilinu dó e-ð inn í mér. Til þess að koma mér í gang aftur fannst mér því æskilegt að kynna mér nýja heima. Nýjan heim sem jafnframt byði upp á tæknilegar úrlausnir. Þetta hefur mér tekist.

Ég er í nördaheimum. Ég er m.a.s. með minn prívat heimilisnörd. Heimilisnörd, sem er svo sætur, svo skemmtilegur og svoooo klár. Nönnugata er ekki lengur bara hommaathvarf. Á Nönnugötu er nú sólarhringsnördaathvarf. Nokkrum vikum síðar er ég enn að læra, agndofa og hrifin.

Þetta hef ég m.a.upplifað, reynt og lært á þeim tíma:
- komist að því að nördar hafa dálæti á söngleikjum, sem er öfugt við það sem ég þekki úr hommaheimum!
- horft á 4 tíma bollywood-mynd á stóru tjaldi, í þar til gerðum bíósal með lazy-boy stólum, í heimahúsi.
- séð ungnörd stökkva hæð sína á lofti er japönsk teiknimyndatónlist var sett á fóninn, dansa með af mikilli list og syngja textann orðrétt.
- verið í afmæli sem í voru tugir nörda - og ég.
- kynnst öllum gæjunum í Nexus.
- unnið nær ósigraðan Catan-meistara nörda, í Caaaatan.
- horft á aukaefni á dvd-diskum. Gerir það einhver?
- hlustað á samræður um Lordoftheringsextendedversion, oft. Nota tækifærið og játa að ég hef einnig tekið þátt í slíku, sjálfviljug og ábyrg gjörða minna.
- komist á því að eini sjáanleginn gallinn við nördaheima er dálæti á að skjóta kalla. Verð að viðurkenna að ég kann betur við hommatölvuleik heldur en nördatölvuleiki.

Það sem bíður mín, rétt handan við hornið, er t.d. að:
- horfa á Lordoftheringsextendedversion allar þrjár, í einu allsherjar bíó-maraþoni. Það, að ég skuli taka þeirri áskorun, þykir mér best lýsa hugrekki mínu og atgervi.
- lesa Sandman, sem eru e-r snobb-teiknimyndasögur í nördaheimum. Af hverju ég má ekki bara lesa Hin fjögur fræknu eða Sval og Val í staðinn, átta ég mig engan veginn á.
Að þessu tvennu loknu fæ ég diploma-skjal þess efnis að ég sé orðin alvöru nördastelpa. Það er allt til þess vinnandi að koma sér í álit í nördaheimum...