Fallin vígi

Er búin að pæla mikið í því, eftir nýlega færslu hjá Kriss frænda mínum, hvort það sé yfirhöfuð hægt að vera lélegur í bloggi. Mín fyrsta hugsun var sú að ég hlyti að vera lélegur bloggari, afkastalítil sem ég nú er í þeirri deildinni. En eftir nokkurra daga þankagang hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þurfi bara alls ekkert að vera svo. Ég meina, er e-r að telja færslur eða orð. Er ekki betra að skrifa bara sjaldan, og þá ekkert æginlega leiðinlega, heldur en oft og innantómt?
Iss, ég er barasta ekkert lélegur bloggari. Og á sömu nótum er ég ekkert léleg hækja! Alveg sama þótt að mínir menn láti engin tækifæri ónotuð til þess að kasta í mig eiturpillum þess efnis. Ég hef barasta alltaf verið góð í því sem ég tek mér fyrir hendur. Og ég hreinlega neita öllum ávirðingum í þá átt að mér sé e-ð að förlast bogalistin. O.k. ég viðurkenni að tíma mínum hefur örlítið verið dreift og gagnkynhneigður maður hefur ráðist inn á áður óskipta athygli samkynhneigðra. En til þess að vera alveg sanngjörn, þá fær maður nú meira til baka sem kærasta heldur en hommahækja. Ég hef hins vegar ekki sagt upp störfum og því til staðfestingar fylgir með mynd af mér og heimilishommanum á árshátíðinni okkar.
Nú er ég best í að vera kærasta. Engin önnur stúlkukind kemst með tærnar þar sem ég hef hælana í þeim málum. Ég hef einsett mér að slá í gegn í þeirri deildinni, og þá bara geri ég það. Alveg eins og ég trúi því að ég hafi slegið í gegn í bloggheimum og hommaheimum. Mér líður vel í þessari vissu. Ég er ekki léleg.